Hannes Jóhannsson er fæddur og uppalinn í Stóru-Sandvík í Flóa og býr þar enn í dag. Hannes rekur þar ásamt dóttur sinni Fjólu Signýju fyrirtækið Skálpur slf. sem hefur sérhæft sig í gulrófnarækt til matar og ræktunar á rófnafræi. Hannes nam við Garðyrkjuskóla ríkisins og útskrifaðist þaðan sem garðyrkjufræðingur árið 1972. Hannes hefur stundað ræktun matjurta í áratugi og ræktun gulrófna allt frá árinu 1970 og hefur því mikla reynslu á því sviði. Fyrirtækið Skálpur var stofnað árið 1979
Rófnarækt hefur lengi verið stunduð á Íslandi og hefur Kálfafellsrófan verið hvað lengst í ræktun. Sá stofn kemur til ræktunar frá Kálfafelli í Fljótshverfi um miðja síðustu öld. Kálfafellsrófur hafa reynst mjög vel við íslenskar aðstæður. Sandvíkurrófur eiga upphaf sitt í Kálfafellsrófunni með þeirri erfðavísablöndun sem hún varð fyrir á árunum þegar hún var ræktuð til frætöku kynslóð fram af kynslóð í Danmörku. Fræræktun á Kálfafellsrófan ásamt Vestmannaeyjarófum og öðrum rófum sem voru ræktaðar á Íslandi hófst um 1970 og hefur erfðabreytileikinn verið nýttur til markviss úrvals. Sandvíkurrófan á í samkeppni við norska yrkið Vige, en það hefur átt bróðurpartinn af íslenskri rófnaræktun undanfarin ár. Frærækt af Sandvíkurrófu stuðlar að varðveislu rófnastofns sem hefur reynst vel í ræktun hér á landi enda kominn af gömlum íslenskum stofni og valin af rófum sem ræktaðar eru við íslenskar aðstæður. Sandvíkurrófur eru einnig eftirsóttar af neytendum.
